miðvikudagur, 25. júlí 2007

Meira en 1800 myndir!

Sæl
Nú er ég búinn að setja inn meira en 1800 myndir sem ég, Árni, Kristín, Elísabet og fleiri tóku í ferðinni. Skoðið tengilinn Myndasíða FH-stelpna hér uppi til hægri eða smellið hér til að kíkja á.

kveðja
Guðmundur

sunnudagur, 22. júlí 2007

Laugardagur

Loksins loksins komust stelpurnar í búðir.
Það fór allur dagurinn í búðarráp eftir verðlaunaafhendinguna. Sumar komu vel klyfjaðar heim í skóla eftir daginn og þurfa nú að leigja sér burðarmann og þjappara til að koma dótinu fyrir í töskunni.
Við sáum engin tískuslys og allir voru glaðir með að fá ,,aðeins" að spreða.

kv.
Guðmundur

föstudagur, 20. júlí 2007

Leiðalok í mótinu

Jæja þá eru undanúrslitaleikirnir búnir.
FH3 tapaði 1-0 fyrir Torslanda IK í jöfnum og spennandi leik sem hefði getað farið á hvort veginn sem er.
FH1 tapaði einnig sínum leik á móti Jitex BK.
Sennan var gífurleg og stelpurnar börðust eins og ljón á móti 11 leikmönnum Jitex og einum heimadómara sem hallaði frekar mikið á Íslendingana.
Hann byrjaði snemma í fyrri hálfleik að að dæma víti á FH sem skorað var úr.
Mótherjarnir spiluðu mjög fastann bolta sem þær komust upp með.
Leikurinn endaði 3-0 og voru okkar stelpur að vonum vonsviknar að leik loknum.
Það má þó ekki taka það af þeim að af þeim 108 liðum sem hófu leik í 14 ára riðlunum enduðu þær að lokum í 3 - 4 sæti sem þýðir að þær fá brons afhent á morgun á Ullevi.
Frábær stemming var á vellinum þar sem flestir FH-ingar sem voru í Gautaborg mættu á pallana og hvöttu stelpurnar. Einnig mætti Gísli og Víglundur faðir hans (starfsmenn Gothia Cup) á völlinn til að hvetja landa sína.

Frábær frammistaða hjá öllum liðunum er niðurstaðan að móti loknu og þær, þjálfaranir og fararstjórarnir eiga hrós skilið fyrir þeirra hlutverk í þessu ævintýri. FH1 náði besta árangri af öllu Íslensku liðinum á mótinu!

Ekki meira í bili
kveðja
Guðmundur

En eykst spennan

Jæja, nú er spennan í hámarki.
FH1 byrjaði daginn á að sigra IF-Viken 1-0. Með þessu komust þær í 8 liða úrslit.
Markið skoraði Kristín Guðmunds eftir fína sendingu frá systur sinni Elísabetu.
Spiluðu síðan um miðjan dag við Selånger FK og unnu þann leik 1-0. Markið skoraði Þórdís eftir aukaspyrna sem Elísabet G tók.
Núna eru þær semsagt komnar í 4 liða úrslit og eiga að spila við Jitex BK kl 19:15 í dag.
Farastjórar og þjálfarar eru alveg að fara á límingunum. Sannarlega frábær árangur hjá stelpunum.
----------------
FH2 tapaði fyrir Stjörnunni 1-2 í spennandi leik í B-úrslitum en stelpurnar stóðu sig virkilega vel. Þær eru þó fallnar úr keppni.
----------------
FH3 unnu finnska liðið Vantaan Jalkapall0seura 1-0 og eru áfram í úrslitakeppni B. Markið skoraði Elín Lind. Þær eiga leik kl. 16:00 í dag við Torslanda IK.
Áfram stelpur berjast!

Ekki meira í bili annað en að veðrið leikur við okkur og það er næstum of heitt fyrir stelpurnar.

Kveðja
Guðmundur

fimmtudagur, 19. júlí 2007

Spennan eykst

Jæja þá er útsláttarkeppnin komin á fullt.
FH 2 spilaði við Överås BK og það var sýnikennsla í frábærum fótbolta. Stelpurnar spiluðu betri bolta en ég hef nokkurntíma séð þær spila áður og mótherjinn sá aldrei til sólar, enda skýjað.
leiknum lauk með markaregni 7 -1 fyrir FH.
Mörkin skoruðu Sara Sigmunds 4, Sara P 1, Heiðdís 1 og Jenný 1

FH 3 Spilaði við Lundby IF og unnu 1 - 0. Markið sett Elín Lind.

FH1 Spilaði seinni leikinn í dag á móti Mullsjö IF og þar var einstefna svotil allan leikinn. Mullsjö IF spiliðu þó af hörku og létu finna fyrir sér. Stelpurnar létu það ekki slá sig út af laginu og áttu mörg góð færi. Ein mark leiksins kom í fyrri hálfleik, Elísabet Guðmunds skoraði beint úr aukaspyrnu úr þröngu færi. Mikil stemming var á vellinum og höfðu þær sænsku mikinn stuðningsmannahóp sem heyrðist mikið í. Gunni Svavars, og aðrir Íslendingar létu það ekki á sig fá og kyrjuðu Öxar við ána, sem þaggaði nokkuð niður í þeim sænsku.

Nú magnast spennan og dagurinn á morgun byrjar snemma hjá sumum.

Ekki meira í bili, nýjar myndir á leiðnni inn, skoðið þær endilega.

Kveðja
Guðmundur

Undanúrslit A liða

Hér koma sjóðheitar fréttir af leik FH1 - Råda BK.
Stelpurnar mættu ákveðnar til leiks og það sást greinilega sigurglapi í augum þeirra. Þær byrjuðu dúndurvel og í hálfleik var staðan 2 - 0.
Í seinni hálfleik bættu þær í og það var aldrei spurning um hver færi með sigur af hólmi. Leikurinn endaði með 5 - 0 sigri þar sem Þórdís og Aldís skoruðu 2 mörk hvor og Kristín Guðmunds skoraði 1.
Það sem einkenndi leikinn var mikill og góður liðsandi og spiluðu þær frábæran fótbolta allan leikinn. Birna Berg varði vel öll tvö skotin sem rötuðu á mark og átti góð úthlaup þess á milli.
Íris er enn í skýjunum þar sem einn áhorfandi (drengur á réttum aldri) sagði við hana eftir markið í gær ,,nice goal". Þar sem keppnin er útsláttarkeppni núna eru þær komnar áfram í næstu umferð og spila aftur kl. 15:50 í dag.

Kveðja
Guðmundur

miðvikudagur, 18. júlí 2007

Miðvikudagur

Jæja, enn einn keppnisdagur búinn.
Hér eru úrslitin:
FH3 - Bele Barkarby 3 - 0
Markaskorarinn hér var Aldís í öllum tilvikum.
FH1 - Sösdala IF 3 - 0
Mörkin voru framreidd af Írisi með glæsilegu gegnumbroti sem var fullkomnað með snyrtilegu skoti eftir góða sendingu frá Kristínu. Síðan kom gott skot frá Hildi sem markmaðurinn var næstum búnn að verja en inn vildi boltinn. Lokamarkið var síðan þrumufleygur frá miðjum vallarhelmingi andstæðinganna efst í vinkilinn, óverjandi frá Elísabetu Guðmunds.
FH2 - Vaksala SK 0 - 1
Þetta var mjög jafn leikur sem hefði ef allrar sanngirn er gætt átt að enda með jafntefli en andstæðingunum tókst að setja eitt :-(

Eftir leikina var farið með stelpurnar í Liseberg (aftur!!!). Þær vildu endilega fá fleiri salíbunur og þær sem áttu eftir að fara í draugahúsið notuðu tækifærið og fóru núna. Tóti þorði ekki þar sem hann var ekki í brúnum buxunum sínum.

Á morgun spila FH1 (sem eru efstar í sínum riðli) á móti Råda BK kl. 10:20 í undanúrslitum A.
FH2 spilar við Överås BK kl.14:40 í undanúrslitum B
FH3 spilar annaðhvort við Lundby IF eða Översjö IF (fer eftir þeirra viðureign) kl. 17:10 í undanúrslitum B
Enn leikur veðrið við okkur þrátt fyrir að alltaf sé verið að reyna að spá rigningu á okkur.
Nýjar myndir eru að detta inn skoðið tengilinn uppi til hægri.
Ekki meira í bili.

Kveðja
Guðmundur